Fram kemur á vef Knattspyrnusambands Íslands hefur samið við íþróttavöruframleiðandann PUMA. Samningur KSÍ og PUMA tekur gildi 1. júlí og tekur við af samningi KSÍ og Errea, en landsliðin hafa leikið í Errea fatnaði frá árinu 2001.

Nýtt landsliðsmerki, sem áður hefur verið greint frá, verður kynnt í lok júní og verður það merki á nýja PUMA landsliðsbúningnum, sem verður opinberaður um miðjan júlí. Á meðal annarra knattspyrnulandsliða sem leika í PUMA fatnaði má nefna Austurríki, Ítalíu, Serbíu, Sviss og Tékkland.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ: „Ég vil byrja á að nota tækifærið og þakka Errea fyrir langt og farsælt samstarf, KSÍ og Errea hafa upplifað margt saman í gegnum árin. Nú er komið að nýjum kafla í búningasögunni og næstu skref á okkar vegferð tökum við með PUMA. Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við PUMA, sem er án vafa eitt fremsta íþróttavörumerkið í heiminum í dag, og hlökkum mjög til þess að sjá fyrsta PUMA búning landsliða Íslands kynntan um miðjan júlí. Ekki má gleyma því að við ætlum að kynna nýtt myndmerki landsliðanna okkar í lok júní, þannig að nýji PUMA búningurinn verður með nýja landsliðsmerkinu.“

Björn Gulden, forstjóri PUMA: „Íslensku landsliðin hafa náð ótrúlegum árangri í fótboltanum undanfarin ár. Þrátt fyrir að vera fámenn þjóð hafa Íslendingar sýnt að það er hægt að ná langt með hæfileikum, rétta viðhorfinu og ekki síður einstakri liðsheild. Ég vænti mikils af samstarfinu við KSÍ og hlakka til þeirra verkefna sem eru framundan.“